Ha?

Tuesday, December 27, 2005

Jólakort

Hér er flutt jólakort, með góðfúslegu leyfi AFO.

Við ættum ekki að horfa á hamingjuna eingöngu sem eitthvað raunverulegt og ekta í sambandi við okkar eigin líðan, heldur ættum við einnig að horfa á hana í sambandi við samfélagið og kapitalisman. Hver er virkni hamingjunnar? Hvernig er hún notuð? Hún er ekki bundin við eitt tímabil heldur er hún alltaf í notkun nú til dags. En til þess að níðast á einum tíma fremur en öðrum getum við litið á jólin. Á jólunum spilar hamingjan stóra rullu; maður ekki bara sér það heldur heyrir það í útvarpinu og les um það í blöðunum og í pósti. Í útvarpinu heyrir maður ræður um það hversu mikilvægt það sé að setjast niður í kaupæðinu og jólaamstrinu öllusaman, dempa ljósin og kannski kveikja sér á kerti (helst ilmkerti), draga andann djúpt og finna innri ró - hugarró - og svo fær maður sent í pósti geðorðin sem allir þurfa að lesa, allir þurfa að hugsa jákvætt og helst drífa sig bara í jóga eða lesa bókina Gæfuspor og rækta eigin tilfinningar. Við megum ekki fórna líkama og sál og slefa frammi fyrir peningum og efnislegum gæðum, heldur verðum við einnig að huga að hinu andlega. Því að í því er hamingjan fólgin. En hvílík launhræsni sem felst í þessu hamingjutali. Við ættum ekki að taka þátt í þessu. Hamingjan er tæki og ekkert annað en utopia (ópíum) og því nánast merkingarlaust að nota hana til þess að lýsa líðan sinni. Það er í það minnsta tvíbent vegna þess að hugtakið hamingja er tæki til þess að lýsa líðan sinni en einnig tæki kapitalismans. Það má segja að hugmyndin um hamingju sé að hálfu frátekin. Auðvitað þurfum við að vera hamingjusöm sjálfra okkar vegna en einnig til þess að vera virk á markaðnum (það þýðir ekki bara að vera þunglyndur heima). Kapitalisminn miðar nefnilega að því að virkja þau öfl sem búa í manninum í því skyni að hámarka framleiðslu og vöxt, og allt þetta hamingjutal er hluti af því kerfi: að finna hugarró og mæta svo fílelfdur til baka á markaðinn. Þetta hamingjutal og þessi vestræni búddismi, þessi geðorð, þetta jóga er allt hluti af kerfinu - hin hliðin á kapitalismanum. Þetta eru hliðstæður. Auðvitað þarf kapitalisminn á utopium að halda, á hliðstæðu að halda til þess að fúnkera, auðvitað þarf hamingjan að vera byggð inní kerfið til þess að virkja fólkið. Hér ætla ég ekki að kenna neinum um neitt, enda ekki við neinn beint að sakast (það er enginn að plotta þetta bakvið tjöldin með joystikk í hönd), hvað þá heldur að bjóða fram (eða útiloka) eitthvað betra en kapitalismann. Ég vildi aðeins sýna fram á að hugmyndin um hamingju er ekki eins hlutlaus og hún lítur út fyrir að vera. Við þurfum á henni að halda en einnig kapitalisminn (því er ekki erfiðara að virkja þunglynda eistaklinga í því skyni að hámarka framleiðsluna). Hamingjan er sem sagt alltaf tvítengd, við höfum bláan vír og rauðan en vitum ekki hvorn við eigum að klippa til þess að aftengja. Það er kannski best að varpa hamingjunni fyrir róða og vonast til þess að öðlast þannig raunverulega hamingju? Eitt er ljóst að ef maður eltist við þetta hamingjutal sem nú heyrist, hinn vestræna búddisma, þá lendir maður fljótlega í gjörsamlega skipulögðu og mótandi rými sem setur hömlur á manns eigin frelsi. Hamingjan er varasöm (gott tæki og vont). A.F.O.
posted by Ha?, 6:46 PM

1 Comments:

Gledilegt nytt ar Hjalti. Sit a netkaffi i Luxor og verd liklega kominn aftur til Cairo eftir 2 daga. Skil ekki af hverju menn kalla tetta netkaffi, aldrei hef eg sed tetta kaffi. Annars hefur ferdin gengid vel og vid sjaumst 7. jan.
commented by Anonymous Anonymous, 10:40 PM  

Add a comment